Vigdís Jóhannsdóttir hjá Pipar/TBWA þáttur 64

Vigdís er gestur Óla Jóns í þessum þætti. Umræðuefnið er sú þjónusta sem Pipar/TBWA býður uppá ásamt því hvað Vigdísi finnst hafa breyst í markaðsmálum á hennar ferli sem spannar nú um tuttugu ár.

Vigdís Jóhannsdóttir

Við ræðum einnig Krossmiðlum sem er ráðstefna sem haldin er núna 13. september 2019.
Á þá ráðstefnu mæta meðal annara John Hunt og Mark Schafer, Bylgja Pálsdóttir, Stella Samúlesdóttir og Ólafur Steinarsson.
Á krossmidlun.is má lesa um fyrirlesarana:

Mark W. Schaefer

Mark Schaefer

Mark W. Schaefer fæddist í Pittsburgh í Pennsylvaníu árið 1960 og verður því sextugur á næsta ári. Nú á gullöld samfélagsmiðla þykir fólk á þeim aldri ekki líklegast til sérstakra afreka, ekki við notkun miðlanna og enn síður við mótun þeirra. Mark er því oft kallaður „gamli maðurinn“ í samhengi við starf sitt en hann er einn virtasti samfélagsmiðla- og markaðssérfræðingur heims.

Mark Schaefer er afar reyndur fyrirlesari sem kemur efninu og skoðunum sínum frá sér á skemmtilegan og kröftugan hátt. Því er mikill akkur í því að fá hann á Krossmiðlun þann 13. september 2019. Þar lætur hann þó ekki staðar numið því Schaefer ferðast um heim allan sem ræðumaður, leiðbeinandi og ráðgjafi. Hann er metsölurithöfundur, heldur úti öflugu bloggi, afar vinsælu podcasti og er tíður gestur í útvarpi, sjónvarpi og öðrum miðlum á borð við Wall Street Journal, Wired, The New York Times, CNN, National Public Radio, CNBC, BBC og CBS NEWS og er reglulegur dálkahöfundur hjá The Harvard Business Review. Þá hefur hann komið að stórum markaðsherferðum fyrir ótal stofnanir og fyrirtæki, til að mynda Adidas, Johnson & Johnson, Dell, Pfizer, The U.S. Air Force, og bresku ríkisstjórnina.

Hvar sem hann stígur niður fæti talar Schaefer um mikilvægi samtalsins við neytandann og efnið sem miðla skal, en dregur í efa gildi og framtíð „hefðbundinna“ auglýsingamiðla. Nýjasta bók hans, Marketing Rebellion – The Most Human Company Wins, hefur hlotið fádæma góðar viðtökur. Þar leggur Schaefer út frá þeirri hugmynd að fyrirtæki samtímans geti ekki með nokkru móti keypt sig inn í huga viðskiptavina sinna heldur sé uppbygging trausts lykillinn að velgengni. Okkar verkefni sé að hleypa fólki að vörunni á réttan hátt, koma trúverðuglega fyrir og leyfa síðan almenningi að vinna markaðsvinnuna fyrir okkur eftir að við höfum sannfært sem flesta einstaklinga og fengið í lið með okkur. Bókin er afar skemmtileg aflestrar og óhætt að mæla með henni, sem og blogginu hans {grow} og podcastinu Marketing Companion Podcast. Allt þetta og miklu fleira má kynna sér á vefsíðu Schaefers https://businessesgrow.com.

JOHN HUNT

John Hunt

John Hunt verður aðalfyrirlesari á Krossmiðlun 2019. Hann er Creative Chairman hjá TBWA\Worldwide – en þá er ekki öll sagan sögð.

John Hunt er fæddur í Zambíu. Árið 1983 stofnuðu hann og félagar hans stofuna TBWA\Hunt\Lascaris undir einkunnarorðunum: Life’s too short to be mediocre. Stofan er í dag í fararbroddi auglýsingastofa á heimsvísu og hefur hlotið viðurkenningar á borð við auglýsingastofa aldarinnar árið 2000 og auglýsingstofa áratugarins 2010, en það sama ár varð herferð fyrir dagblaðið The Zimbabwean að mest verðlaunuðu herferð allra tíma.

John tók ríkan og persónlegan þátt í kynningarstarfi og kosningabaráttu Nelson Mandela fyrir forsetakosningarnar 1993 og sýndi þannig fram á að auglýsingar geta svo sannarlega gert heiminn að betri stað. Eftirleikinn þekkja flestir. Suður-Afríka hafði á þessum tíma gengið gegnum afar erfiða tíma en í kjölfar hinna sögulegu kosninga mjakaði hið særða samfélag sér í átt að sátt og lýðræði.

Árið 2003 fluttist John til New York, tók þar við starfi sem Worldwide Creative Director og hélt áfram á lofti hugmyndafræði sinni: Snilldin liggur ekki í auglýsingunum sjálfum heldur í hugmyndunum að baki þeim. Við komuna til NY kom hann á fót Young Bloods-verkefninu en í því felst að fela ungu og óreyndu fólki erfið, krefjandi og raunveruleg verkefni, þvert á þá venju að láta starfsnema byrja á botninum. Pipar\TBWA setti sitt eigið Young Bloods-verkefni á laggirnar árið 2014 og út úr því komum við öll reynslunni ríkari.

2006 fluttist John aftur til Suður-Afríku og sinnir vinnu sinni fyrir TBWA\Worldwide að mestu frá Jóhannesarborg.

Hunt hefur setið í fjölmörgum nefndum og akademíum stærstu verðlaunahátíða heimsins, til að mynda sem formaður Cannes Film, Press & Outdoor Advertising Festival árið 2005. Til viðbótar hefur hann skrifað leikrit, bækur og fyrir sjónvarp. Hann var útnefndur sem leikskáld ársins í Suður-Afríku fyrir verk sitt Vid Alex, verk sem fordæmdi harkalega ritskoðun á tímum aðskilnaðaráranna og vakti gríðarlega athygli.

‍Við hvetjum allt áhugafólk um skapandi hugsun til að lesa bók Hunt, The Art of the Idea: And How It Can Change Your Life. Sú lesning er fullkomin upphitun fyrir fyrirlesturinn hans á Krossmiðlun þann 13. september 2019.


Jewells Chambers

Jewells Chambers verður ráðstefnustjóri á Krossmiðlun 2019 en hún stýrir stafrænni stefnumótun hjá Pipar\TBWA og dótturfyrirtæki þess, The Engine.Jewells sá um stefnumótun og efnismarkaðssetningu hjá Icelandic Mountain Guides (Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum) árin 2016–2019. Jewells hefur mikla reynslu og þekkingu í stafrænni markaðssetningu, en áður en hún kom til Íslands starfaði hún í New York m.a. hjá ClickZ Group & SES, Opal Summits, The Glass Hammer og The White House Project.Jewells er fædd og uppalin í Brooklyn í New York en hún flutti til Íslands fyrir 3 árum. Utan vinnu stundar Jewells fjallgöngur og heldur úti hlaðvarpi um Ísland.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *